til baka í greinar

Eygló Þorgeirsdóttir, fótaaðgerðafræðingur

Verndum fætur barnsins

Íslendingar eru meira í skóm en flestar aðrar þjóðir og börnin okkar eru nánast alltaf í skóm og í sokkum. Við fæðingu eru 98% barna með eðlilega skapaða fætur sem líta út eins og blævængir með góðum bilum á milli tánna. Fyrstu tvö árin eru bein í fótum barns brjóskkennd og þar af leiðandi mjög mjúk og eftirgefanleg og aðlagast auðveldlega þröngum skóm, sokkum og sokkabuxum. Fótavandamál barna hafa aukist töluvert á síðustu árum og áratugum sem á sínar skýringar. Við leituðum svara hjá Eygló Þorgeirsdóttur fótaaðgerðafræðingi og spurðum hana meðal annars út í mikilvægi þess að huga vel að fótum barna allt frá unga aldri því eins og máltækið segir: ,,Lengi býr að fyrstu gerð".

,,Við getum sagt okkur það sjálf hvaða munur er á jafnvægi fóta hjá einstaklingi sem hefur hverja einustu sin og vöðva í góðri þjálfun og hjá einstaklingi sem er með illa þjálfaða fætur og fótleggi. Við megum ekki gleyma því að þetta er líkamshluti sem þarf þjálfun. Beinin frá tá til ökkla eru 26 talsins, vöðvarnir 19, liðamótin 33 og liðböndin 107. Allt gegnir þetta mikilvægu hlutverki í framtíð barnsins, meðal annars hvað snertir stöðugleika, jafnvægi, úthald og styrk í öllum líkamanum sem hefur síðan áhrif á hreyfingu og endingu líkamans um alla framtíð. Röng beiting fóta getur því haft slæmar afleiðingar fyrir hné, mjaðmir og mjóbak."

Berfættum börnum er best að lifa!

-Hvað ber að hafa í huga til að fyrirbyggja fótavandamál barna og hugsanleg seinni tíma vandamál?
,,Við eigum að hafa börn sem minnst í skóm og sokkum fyrstu tvö árin og leyfa fætinum að stælast á eðlilegan hátt.
Börn í skóm fara að standa í fæturnar þó nokkru fyrr en geta beinanna leyfir sem getur orsakað seinni tíma vandamál í líkamanum. Þau geta staðið upp vegna þess að skósólinn er svo stöðugur og skórinn nær venjulegast upp fyrir ökklalið sem líka hjálpar barninu til að halda jafnvægi fyrr en þau hafa þroska og styrk til. Þar af leiðandi missa þau af eðlilegu hæfnis- og jafnvægisferli sem þau jafnvel aldrei ná. Ef barnið fær að vera sem mest berfætt eru meiri líkur á að fæturnir þroskist eðlilega. Eftir tveggja ára aldurinn eru komnir sterkir fætur og þá tel ég að börn þoli hvaða skó sem er en best er að vera í fótlaga skóm með góðu holrúmi, með styrkingu í hæl og sveigjanlegum sóla sem er um leið stinnur. Ekki er æskilegt að skór gangi á milli barna því að fætur barna eru ekki eins, jafnvel ekki á systkinum. Þá þarf að gæta þess að skór barna séu vel stórir og að sokkar og sokkabuxur þrengi ekki að fótunum og tánum. Sokkabuxur minnka oft við fyrsta þvott sem verður til þess að okkur hættir til að taka um mittisstrenginn á buxunum og hífa þær vel upp í mittið. Þarna gleymist oft að öll litlu tábeinin eru langt frá því að verða fullhörðnuð og geta nánast aflagast eins og leir.
Það er þessvegna mikilvægt að gera sér grein fyrir öllum smáu beinunum frá hæl til táar á fótum barnsins ásamt öllum sinunum og litlu vöðvunum sem tengja þau saman. Þennan hluta líkamans þarf ekki síst að þjálfa, því styrkur þessa líkamshluta getur skipt sköpum um hreysti, jafnvægi og úthald líkamans seinna á lífsleiðinni. Í framfætinum liggur einnig fjöldi lítilla vöðva og sina sem raðast á beinin og stjórna hreyfingu fótarins frá ökkla fram í tá."

Margvísleg vandamál en távandamál tíðust

-Hvert er algengasta fótavandamálið hjá börnum og hvaða aldurshópi eru fótaaðgerðafræðingar aðallega að sinna?
,,Yngsta barnið sem ég hef fengið til mín var þriggja mánaða en þá var komið naglavandamál þar sem neglurnar voru klipptar vitlaust en aldurshópurinn sem ég fæ hvað mest til mín eru krakkar frá átta ára upp í táningsaldurinn.
Vandamálin eru margvísleg en távandamál eins og inngrónar táneglur og ofholgun milli stóru táar og næstu táar eru hvað mest áberandi. Ástæðan er oft á tíðum sú að það er komið ójafnvægi í alla þessa vöðva þannig að göngufasinn er ekki réttur og þarna myndast bólga vegna núnings. Síðustu tuttugu til þrjátíu árin hafa fætur ungs fólks, frá hæl til táar, breyst mikið hvað styrk og þjálfun viðkemur sem svo hefur orsakað aukin távandamál. Einnig er hreyfanleiki í fætinum oft gríðarlega skertur hjá þessum krökkum.
Þetta er hægt að sjá og prófa með því að skoða hversu þjálfaður liður stórutáar er en það eru ekki sömu vöðvar sem stýra honum og stýra hinum fjórum tánum. Í stóru tá eru tveir kögglar en í hinum tánum eru þrír kögglar sem þýðir að annað hreyfimunstur er í stóru tá við göngu.
Ef samspil þessa tveggja vöðvahópa er ekki réttur myndast oft vandamál og þá sérstaklega í stóru tánni sem er öðruvísi uppbyggð miðað við hinar fjórar. Þessi vandamál lýsa sér aðallega í eymslum kringum nögl stóru táar, hún vill bólgna og það myndast ígerðir og ofholgun. Fólk álítur þetta gjarnan vera inngróna nögl og þá er farið að klippa nöglina langt niður með hliðinni en neglur á að klippa þvert og sverfa hvassar brúnir og horn. Þetta getur orsakað að vegna bólgunnar þá vex nöglin inn í bólgna holdið sem er þar fyrir þegar hún fer að vaxa upp aftur. Nöglin er í þessum tilfellum mjög eðlileg og kemur alveg rétt út úr naglarrótinni en það sem oftast á sér stað er að fremsti stórutáar liðurinn er hálf afllaus, eða ekki nógu sterkur, þannig að hann vinnur ekki eins og hann ætti að gera í göngumunstrinu sem endar þá með bólgum, ígerðum og ofholgun. Þetta verður vítahringur sem oft er erfitt að komast út úr.
Þegar þessi veikleiki er til staðar þá nota ég mikið silikon sem er eins og leir og er mótað og sett á milli tánna til að halda þeim frá hver annarri þannig að þær nái ekki að nudda hverja aðra og ég er alveg undrandi hvað sumir krakkar aðlagast þessu fljótt og verða háðir silikoninu. Þau ganga alltaf með sílíkonið, geta ekki án þess verið, og ef það týnist þá virðist vandinn koma upp aftur. Þarna er orsökin jafnvel orðin varanleg."

-Hvaða öðrum fótavandamálum barna eru fótaaðgerðafræðingar að sinna?
,,Plattfótur er eitt þeirra vandamála sem hrjá börn en hann getur bæði verið meðfæddur og líka áunnin vegna þess að þessir vöðvahópar í fætinum eru ekki nógu sterkir. Það sem ég ráðlegg við þessu eru fyrst og fremst æfingar til að styrkja fótinn. Það er óskaplega mikilvægt að fara með barnið í leik, að gera æfingarnar að leik og láta barnið þannig þjálfa fæturnar og tærnar. Það er hægt með því að láta það taka upp tusku eða penna af gólfinu með tánum, ganga á tánum, jarkanum og hælnum. Þegar þessi styrkur er ekki nógu mikill þá er með æfingunum verið að fyrirbyggja seinni tíma meiðsl og ýmis vandamál sem geta komið upp síðar meir og geta líka haft áhrif upp í bak. Þannig getum við jafnvel fyrirbyggt að þessi einstaklingur verði baksjúklingur síðar á ævinni.
Þá er algengt að foreldrar komi með börn sín sem með vörtur og stundum telja þeir að um líkþorn sé að ræða en það eru vörtur sem líta út eins og líkþorn. Einnig er komið með börn með svokallaðar vetrarfætur sem er þurr og sprungin húð á framhluta iljar og ofan á tám. Ástandið er verra í kulda og á veturna. Meðferð við þessu er að smyrja kremi á meinið sem inniheldur karbamid og mýkja það þannig upp. Þegar um fótavörtur er að ræða er mikilvægt að nota baðskó við sundlaugar og íþróttaskó í íþróttasölum.
Varðandi fótasveppi þá þarf að þurrka sérstaklega vel á milli tánna og skipta um sokka daglega. Ef um er að ræða kláða, sviða eða hrjúfa húð milli tánna þá skal leita ráða hjá fótaaðgerðafræðingi.
Mörg önnur vandamál geta háð fæti barnsins eins og ilsig og holfótur, sem geta bæði verið áunnin, þjálfunarskortur eða ættgengar orsakir. Öll eiga þessi vandamál það sammerkt að mikilvægt er að leita ráða hjá fótaaðgerðafræðingi."

Mikil skónotkun og minni hreyfing barna

-Nú hafa fótavandamál á meðal barna aukist töluvert. Hverjar telur þú vera helstu ástæður þessarar aukningar?
,,Ein ástæðan fyrir távandamálum ungs fólks í dag er að það hefur byrjað of snemma að nota skó. Fyrir um það bil þrjátíu árum kom upp geysisterk alda um að vernda fót barnsins með góðum skófatnaði og voru þessi áhrif gegnum gangandi í hinum vestræna heimi. Þessi alda kom til ungra mæðra í gegnum lækna og þá skóframleiðendur.
Ég man ekki eftir að hafa séð slík vandamál hér áður fyrr í sama mæli og ég geri nú. Ég tengi það bæði skónotkun okkar og það að börn leika sér ekki eins mikið. Það er mikil breyting á lífstíl barna sem voru kannski fædd 1967 eða 1987. Það er minni hamagangur og hreyfing á börnum í dag og krakkar sitja meira yfir tölvum og hreyfa sig minna. Ég væri ekki hissa á að orsök vandans væri sambland af þessu.
Þá komu á markaðinn, upp úr 1980, ýmis vinsæl hjálpartæki eins og göngugrindur og hopprólur sem komu börnunum fyrr á fæturnar sem er líklegt að hafi haft áhrif á þroska, samhæfingu og styrk fótanna. Göngugrindin er í lagi ef börnin eru höfð berfætt eða í sokkum við notkun hennar en hún eyðileggur að einhverju leyti þetta skriðferli sem ég tel mjög mikilvægt að börn fari vel í gegnum og fái mikla þjálfun og hæfni á þessum þroskaferli. Þá hef ég heyrt frá íþróttakennurum að börn í dag geti ekki hoppað á öðrum fæti því þau skorti jafnvægi. Þetta er þróun sem er mjög svo alvarleg."

Upplýsingaflæði þarf að aukast

-Hafa fótaaðgerðafræðingar verið í samstarfi við aðila eins og ungbarnaeftirlit til þess að koma upplýsingum á framfæri til foreldra um verndun fóta barna? ,,Því ver og miður hefur mér vitandi ekki verið neitt samstarf við ungbarnaeftirlit eða heilsugæslustöðvarnar um verndun fóta barna. Það sem hins vegar er mjög jákvætt er að læknar hafa í auknum mæli verið að vísa á okkur fótaaðgerðafræðinga. Hér áður voru læknar mikið að rífa af neglur ef um naglavandamál var að ræða eða skera líkþorn í burtu og sauma fyrir sem myndaði örvef. Orsökin var því enn til staðar þannig að líkþornið hélt áfram að koma en líkþorn eru mjög fátið hjá börnum.
Heilbrigðisstéttir og allra helst fótaaðgerðafræðingar þyrftu að kynna mun betur og koma á framfæri upplýsingum um verndun fóta barna og það ættu að vera upplýsingabæklingar á þeim stöðum sem ungbarnaeftirliti er sinnt. Ég hefði einnig áhuga á að komast inn á leikskólana og inn í skólana þar sem verðandi leikskólakennarar stunda nám og kynna þetta á þeim stöðum. Þannig yrðu leikskólakennarar enn meðvitaðri um mikilvægi fótarins frá hæl til táar, kenndu og leyfðu börnunum að þjálfa þann hluta hans og kæmu að sama skapi þessum upplýsingum áfram til foreldranna. Þannig yrði upplýsingaflæðið mun betra," sagði Eygló að lokum.

Átta góð ráð sem vert er að hafa í huga:

1. Hafðu barnið þitt eins mikið berfætt og þú getur.
2. Nuddaðu alltaf fætur barnsins þegar þú þurrkar þær eftir baðið, gerðu það sama þegar þú klæðir barnið úr skónum.
3. Gætið þess að sokkar þrengi aldrei að tánum, beinin eru brjóskkennd fyrstu tvö árin.
4. Athugaðu sokkana. Eru þykkir saumar á sokkunum sem gætu sært?
5. Er nægt rými fyrir tærnar í skónum?
6. Eru saumar á skónum sem gætu sært?
7. Þreifaðu alltaf inn í skóna þegar þú kaupir þá. Finnur þú fyrir samskeytum á yfirleðrinu?
8. Farðu í táaleikfimi daglega með barninu þínu.

Texti: Sigríður Dóra Gísladóttir.
til baka í greinar

© eyglo.is - 2008 - netfang 1 - netfang 2
hönnun og umsjón:ingvi rafn

eXTReMe Tracker