Saga fótaaðgerða á Íslandi
Árið 1929 sendi Davíð Scheving Thorsteinsson apótekari í Reykjavíkurpóteki fyrstu íslensku stúlkuna til Danmerkur í nokkurra mánaða nám/námskeið til Dr. Sholl er varð síðar ríkisskóli undir nafninu Fodteapeutskóli. Þóra Borg var ein sú fyrsta og þekktasta. Þær stúlkur sinntu fótameinum í bakherbergi í apótekinu á daginn og um nætur sváfu þar læknakandídatar, þeir sem voru á bakvakt. Frá þessum tíma er til fróðleg bresk heimildarmynd um hvernig tannmeðferðir og fótameðferðir voru á sama plani og unnið að meinum í sama rými. Þróun tannlækna varð svo allt önnur en þróun fótaaðgerða.
Á þessum tíma var nafnið fótaaðgerð ekki til, það varð ekki til fyrr en eftir stofnun Félags fótaaðgerða á Íslandi 1987 – fyrir þann tíma voru eingöngu til hópar og samtök þeirra sem höfðu lært meðhöndlun á fótameinum í skólum erlendis eða hér heima á stofum. Nemendur lærðu þá hjá konum sem komu úr þessum erlendu skólum en stundum var bóklegi þátturinn ófullnægjandi og fór eftir metnaði stofanna. Sumar stofur höfðu lækna sem kenndu bóklega þáttin og má þar nefna Úlf Ragnarsson. Aðrar stofur komu sínum nemum inn með nemum í bóklegu þáttunum í sjúkraliðanámi sem þá var kennt af læknum og má þar helst nefna Ragnheiði Guðmundsdóttur augnlækni á Túngötunni er átti frumkvæði að menntun sjúkraliða á Íslandi. Verklegi þátturinn í sjúkraliðanáminu fór þá fram á sjúkrahúsunum.
Í Noregi, eftir seinni heimstyrjöldina voru einkaskólar sem voru tvíþættir. Þar var kennt snyrting annarsvegar og meðferð á fótmeinum hinsvegar. Ef fólk lærði báðar greinar þá var námstíminn mun lengri. Þessar greinar voru svo aðskildar, þóttu ekki eiga samleið undir sama þaki sem er augljóst fyrir þá sem til þekkja.
Þetta er það sem Snyrtiakademían í Kópavogi er að berjast fyrir að fá að sameina í dag sem þótti óhæft og var aðskilið fyrir 45 árum í Noregi. Úr þessu námi komu nokkrar konur heim til Íslands og höfðu þær flestar numið báðar greinarnar, en hér heima var engin skóli til staðar á þessum árum.
Þróunin varð sú að sumar af þessum konum settu á stofn bæði snyrti- og „fótmeinasnyrtistofu“ (Þær sem höfðu ekki þetta umframnám ráku eingöngu snyrtistofu. Þannig var skilgreiningin þá.) Í litlu samfélagi eins og Reykjavík –skildu þeir sem höfðu fótamein þessa skilgreiningu og nýttu sér þjónustu okkar. Eftir að nafnið fótaaðgerð var löggilt var það e.t.v. ekki nægilega kynnt almenningi og því fór aukinn misskilningur af stað, snyrting – aðgerð sem mörgum fannst of sterkt til orða tekið.
Þetta var illa skilgreint fyrir almenningi og er svo enn, því miður, og er það eingöngu við fótaaðgerðafræðinga að sakast um að kynna sitt fag ekki betur.
Í Danmörku varð þróunin aðeins öðruvísi. Þar þróaðist námið í fótameinum í fyrstu frá Dr. Sholl sem rak stofu, kenndi á stofunni og sérhæfði sig einnig í fótavörum sem eru þekktar enn í dag. Dr. Sholl skólinn er forstig Fodterapeutskolans í Kaupmannahöfn sem varð svo ríkisskóli um 1972. Noregur fékk löggildingu nokkrum árum síðar. Nokkrar íslenskar stúlkur útskrifuðust á Norðurlöndunum og Finnlandi fyrir þennan tíma og komu sumar þeirra heim til starfa. Á þessum tíma þróuðust sérskólar með ólíkum hætti á Norðurlöndum, frá 6 mánuðum í Svíþjóð upp í að vera háskólanám í dag Svipuð þróun hefur átt sér stað í Finnlandi þar sem er 3 1/2 árs háskólanám. Í Noregi og Danmörku er þróunin sú sama. Unnið er að háskólanámi þar sem það er ekki nú þegar til staðar. Beðið er eftir fjárveitingum í þeim löndum. Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga er aðili að Fíb alþjóðlegum félagssamtökum.
Þróun - löggilding fótaaðgerða
Löggilt starfsheiti. Er heimilt að nota löggilt starfsheiti sem nafn á skóla? Er heimilt að nota nafnið Sjúkraþjálfunarskóli Íslands eða Lögfræðiskóli Kópavogs án samþykkis fagfélagsins? Þótt ég sem eigandi skóla og er löggiltur fótaaðgerðafræðingur er mér heimilt að nota nöfn annarra faggreina á mín námskeið?
Þróun menntunar hinna ýmsu heilbrigðisstétta á síðustu 30 árum
Milli 1960 og 1970 var sjúkraliðanám eingöngu kennt á sjúkrastofnunum með bóklegri kennslu, kennt af læknum er gáfu kost á sér í það. Ljósmæðranám var 9 til 15 mánaða, kennt af ljósmæðrum og læknum. Hjúkrunarkvennanám, meinatæknar og svo mætti lengi telja. Allt eru þetta starfsgreinar sem hafa þróast sumar af framhaldskólastigi sem engum finnst eiga heima nema á háskólastigi í dag. Hvers vegna?
Allt eru þetta starfsstéttir sem meðhöndla sjúklinga, fólk með mein, fólk með heilsubresti, fólk með bælt ónæmiskerfi og í dag þykir þetta sjálfsagt. Á þessum rökum förum við fótaaðgerðafræðingar fram á að skólinn fari á háskólastig þar sem er krafist aukinnar undirstöðu, meiri faglegrar þekkingar á líffræðilegum grunni. Sú þekking er ábótavant bæði hérlendis og víða erlendis, þess vegna hafa þeir framsýnu og víðsýnu ráðamenn nokkurra erlendra ríkja fært menntun sína yfir á það stig. Fótaaðgerðafræðingar vinna meira en margar aðrar heilbrigðisstéttir einir sér á stofnunum eða í lokuðum rýmum (samanber tannlæknar, sjúkraþjálfun o.fl.) og er ábyrgð fagmannsins þar með mun meiri. Á þessu.m forsendum þarf fagmaðurinn sem meðhöndlar í starfi sínu 60 til 70% sjúklinga með heilsubresti á mismunandi stigum, mun meiri undirstöðumenntun en í dag er krafist. Fótaaðgerðafræðingar sem hafa unnið við starfið af einhverju ráði sjá þetta, hafa upplifað ýmsa þætti eins og yfirlið í stól, hjartastopp, flogaveikiskast, sykurfall og fleira. Á öldrunarheimilum á þetta ekki síst við. Við vitum að mikla ábyrgð og þroska þarf þarna til. Menntun ætti þessvegna að meta á jafns við hjúkrun, sjúkraþjálfun og aðra samsvarandi stéttir.