til baka í greinar

Eftirfarandi texti birtist í Vikunni 10.10.06

Greinin úr Vikunni

Varð strax heilluð af Shiatsu

Eygló Þorgeirsdóttir er með mörg járn í eldinum. Hún er lærður snyrtifræðingur, fótaaðgerðafræðingur, sjúkranuddari og hefur í 20 ár rekið eigin stofu að Langholtsvegi 17. Nýjasta skrautfjöðrin í hatt Eyglóar eru gráður sem hún tók í Shiatsu-meðferð og nálastungum.

Eygló hefur alla tíð verið óþreytandi við að bæta við sig menntun og hefur m.a. sótt námskeið erlendis reglulega. Hún hafði nýlokið einu slíku í Bretlandi þegar hún rakst fyrir tilviljun á bækling um Shiatsu og dreif sig á kynningu. Eygló segist strax hafa verið alveg heilluð af þessari tækni og skráði sig undireins í British School of Shiatsu Do í London að loknu því námi hóf hún nám í nálastungum í skóla Acu Medic er útskrifar mikið af læknum og fólki innan heilbrigðisstétta en hann tengist og er í samvinnu við Háskólann í Peking. Hún segist ekki hafa áttað sig á því fyrirfram hversu viðamikið námið var en þegar upp var staðið hafði Eygló verið átta ár í námi í Bretlandi meðfram vinnu. Eftir það hafði hún meira að segja dvalið um tíma í Kína til að kynnast starfsaðferðunum nálastungutækninnar þar. Henni þótti magnað að kynnast kínverskum sjúkrahúsum og segir þau afar ólík þeim vestrænu. Kínverskir læknar beiti jöfnum höndum lyfjagjöfum, jurtum, skurðlækningum og handlækningum og menn komi oft í meðferð á hverjum degi í einhvern tíma (en) séu þeir ekki lagðir inn. Hún segir hjartnæmt að sjúklingar komi aldrei einir á spítalann heldur ávallt í fylgd með einhverjum úr fjölskyldunni.

Gaman í vinnunni

Shiatsu er austurlensk meðferð á orkubrautum líkamans líkt og nálastungur, nema þar eru ekki notaðar nálar heldur nudd og teygjur. Shiatsu-meðferð rekur uppruna sinn til Japan en byggir á sama grunni fornra, kínverskra lækninga og nálastungur. Eygló segir meðferðina heildræna, þ.e. taki til allra þátta heilsunnar, ekki bara afmarkaðra kvilla, og misjafna eftir hverjum og einum. Annars segist Eygló oft blanda saman því sem hún hefur lært eftir því sem henni finnst eiga við. Til dæmis nýtist Shiatsu sér í sjúkranuddinu og meira að segja í fótaaðgerðunum. Eygló segist hafa brennandi áhuga á að vinna með fólk og að hún hefði aldrei lagt á sig alla þessa símenntun ef henni fyndist ekki (svona) gaman (í) að vinna með fólk. (vinnunni!)

Teygð, toguð og nudduð - í Shiatsu hjá Eygló

Eftir að hafa talað stuttlega við Eygló Þorgeirsdóttur fyrir Vikuna nýverið, kviknaði áhugi minn á Shiatsu-nuddi. Ég meldaði mig því í tíma hjá Eygló á meðferðarstofu hennar og hafði ljósmyndara meðferðis.

Eygló vísar mér inn í lítið og notalegt herbergi sem er tómt að öðru leyti en því að á gólfinu er stór futon-dýna og nokkrir sérkennilegir púðar. Ég skipti yfir í leikfimifötin því Eygló hafði sagt mér í símann að ég ætti að vera í þægilegum fötum. Ég leggst á gólfið og hlusta á austurlenska slökunartónlist um stund. Eygló kemur og setur púða undir höfuðið og hnén og hefst svo handa. Fyrst tæmir hún hugann og tengir orku sína við mína með því að leggja hönd á kvið mér. Þá fer hún höndum yfir hara-svæðið sem er á maganum til að kanna almennt heilsufarsástand. Sumir punktar þar eru aumari en aðrir og gefa henni vísbendingu um að hverju hún á að einbeita sér. Hún spyr einnig markvissra spurninga um heilsu mína, um mataræði, almenna líðan, skapferli, hvernig ég höndla áreiti, hvernig ég vakna og hvaða bragð mér finnst gott. Þá skoðar hún tunguna, augun og húðina.

Stíflaðar orkubrautir opnaðar

Samkvæmt kínverskri læknisfræði eru í líkamanum tólf klassískar orkubrautir sem liggja eftir líkamanum endilöngum og á þessum orkubrautum lykilpunktar sem tengjast ákveðinni líkamsstarfsemi. Þessir punktar í Shiatsu og nálastungum þarf að róa eða örva til að jafna og opna fyrir orkuflæði í líkamanum, en stíflur í orkuflæðinu tengjast ýmsum kvillum og má bæta úr þeim með því að losa um stíflur þessar. Í Shiatsu eru engar nálar notaðar, heldur er sjúklingurinn teygður og togaður á alla kanta og kemur fljótlega í ljós hvers vegna er gott að vera í leikfimifötunum. Eygló veltir mér á alla kanta á gólfinu og veitist mér í fyrstu erfitt að streitast ekki á móti heldur láta henni stjórn hreyfinganna eftir. Ég kemst þó upp á lag með það fljótlega og fer að njóta tímans.

Ráð við fyrirtíðaspennu

Eygló fer einnig með fingrunum yfir allar orkubrautirnar og nuddar punktana. Oftast finn ég eins og veikan rafstraum þegar hún hittir á punkt en stundum eru punktarnir aumir og ég kveinka mér. Ég játa fyrir Eygló að hafa gegnum tíðina verið þjáð af fyrirtíðaspennu og túrverkjum og hún sýnir mér punkt á fótunum innanverðum sem ég get sjálf nuddað til að jafna hormónakerfið og slá á þessi óþægindi. Að lokum lætur hún mig liggja og slaka á um stund. Þegar ég yfirgef stofuna eftir eins og hálfs tíma meðferð er ég öll eitthvað svo mjúk og í svo góðu jafnvægi að ég hreinlega svíf út um dyrnar.

Sigríður Ásta Árnadóttir blaðamaður.

til baka í greinar

© eyglo.is - 2008 - netfang 1 - netfang 2
hönnun og umsjón:ingvi rafn

eXTReMe Tracker