Mismunur á fótaaðgerð og fótsnyrtingu:
Þú bæðir ekki tannlækninn að varalita þig
Algengt er að fólk rugli saman fótaaðgerð og fótsnyrtingu, að sögn Eyglóar Þorgeirsdóttur, sem rekur fótaaðgerðar-,snyrti- og nuddstofuna Eygló við Langholtsveg í Reykjavík. "Þetta eru tvær mismunandi starfsgreinar en fólk pantar sér stundum tíma í fótsnyrtingu og fer út mjög óánægt af því að þeirra meinum, svo sem líkþornum, sprungum og naglavandamálum hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Eins hafa konur lent í því að panta sér tíma hjá fótaaðgerðarfræðingi og farið út óánægðar því þær voru að leita eftir fótsnyrtingu og þar af leiðandi fengu þær ekki lakkaðar neglur né fannst nægilegur tími lagður í fótanudd og naglabönd til fegrunar. Sjálf er Eygló er bæði löggildur fótaaðgerðarfræðingur og snyrtifræðingur. Því liggur beint við að spyrja hana um mismuninn á þessum greinum.
"Fótaaðgerðarfræðingur tilheyrir heilbrigðisstétt og því er fótaaðgerð hliðstæða læknismeðferðar sem byggist á að bæta mein fóta og veita ráðgjöf. Sjúklingurinn er meðhöndlaður með hnífum, eggjárnum og fræsurum. Þar koma líka til hliðarmeðferðir svo sem spangarmeðferð fyrir niðurgrónar neglur, silicon fyrir mismunandi aflaganir á fótum, ásamt öðrum mismunandi stuðningsmeðferðum."
Eygló segir fótsnyrtingu flokkast undir snyrtifræði og starf snyrtifræðingsins sé að meðhöndla heilbrigða fætur, snyrta neglur og fjarlægja þurra húð. Þeim sé ekki heimilt að nota hnífa eða önnur beitt eggjárn enda séu þeir ekki tryggðir gagnvart því. Fótsnyrting sé á sama plani og handsnyrting. "Þú getur beðið fótaaðgerðafræðingin þinn að lakka á þér neglurnar en það væri svipað og þú bæðir tannlækninn þinn að varalita þig eftir tannviðgerð. Það tilheyrir ekki starfsviði hans," segir hún að lokum.