til baka í greinar

Fimmtudaginn 28. ágúst, 1997 - Innlendar fréttir

Háir hælar og támjóir skór skadda fæturna.

INGIBJÖRG vinnur nú sem fótaaðgerðafræðingur í hlutastarfi á vistheimili fyrir aldraða í Kaupmannahöfn og tvo daga í viku á stofu. Á vegum stofunnar veitir hún öldruðum aðstoð á heimilum þeirra einu sinni í viku. Hún segir samtök þeirra sem reka stofurnar í borginni mjög öflug, þau gæti hagsmuna sinna af harðfylgi. Um hríð vann hún á annarri stofu á Austurbrú sem meðal annarra Ingiríður ekkjudrottning hefur fengið þjónustu hjá síðustu áratugina. Varð Ingibjörg að undirrita samning þar sem hún hét því að hefja ekki störf í hverfinu, á eigin stofu eða hjá öðrum, í eitt ár eftir að hún hætti hjá fyrirtækinu.

Hún segir dönsku almannatryggingarnar greiða stóran hluta af útgjöldum aldraðra til fótaaðgerða. Sem dæmi nefnir hún sykursýkisjúklinga, sem oft þurfi á aðstoð vegna fótameina að halda, einnig þegar beita þurfi svonefndri spangarmeðferð vegna niðurgróinna nagla. Ekki fái þó allir jafnt, beitt sé tekjutengingu.

­ Er mikill munur á dönskum og íslenskum fótum?

"Nei, það finnst mér nú ekki, flest er svipað í þessum efnum. Fólk notar t.d. skó af svipuðu tagi í þessum löndum. Best er að nota fótlaga skó og það eru margir orðnir sér meðvitandi um mikilvægi þess að huga að skófatnaðinum, fótlaga skór eru hins vegar ekki í tísku núna hjá fullorðnum."

­ Hvað gera fótaaðgerðafræðingar einkum hér á landi?

"Við vinnum á stofum en einnig mikið á dvalarheimilum fyrir aldraða og förum líka til þeirra sem búa á eigin heimilum. Áður rak Reykjavíkurborg fótaaðgerðastofur á vistheimilum fyrir aldraða en fyrir nokkrum árum var þeim sem sáu um reksturinn boðið að taka við honum. Þetta var einkavætt. Kosturinn er sá að nú er hægt að bjóða öllum þjónustu á stofunum, ekki eingöngu gamla fólkinu en auðvitað misstum við þá tryggingu sem fólgin var í opinbera rekstrinum.

Við fáumst einnig við meiðsl og annað sem hrjáir íþróttamenn, aðallega hlaupara. Fólk þarf að gæta þess að nota rétta skó. Ef þeir þrengja að nöglum geta þær hægt og sígandi farið að vaxa niður. Sumir fá líka sigg ef þeir stunda hlaupin af miklum krafti.

Þetta á annars ekkert sérstaklega við íþróttamenn, slæmir skór hafa farið illa með fæturna á mörgum."

­ Hvað viltu segja um háa hæla og támjóa skó?

"Konur sem hafa verið mikið í skóm með háa og mjóa hæla hafa oft orðið fyrir því að fæturnir hafa breyst, tærnar hafa orðið svolítið kræklóttar. Beinin breytast vegna álagsins. Margar þeirra þurfa nú að fá aðstoð hjá okkur.

Tábergssig er nokkuð algengt, það getur verið meðfætt en hægt er að fá sérhannað innlegg hjá þeim sem sérhæfa sig í slíkum hlutum. Þeir geta lagað þetta.

Támjóu skórnir sem voru í tísku fyrir nokkurm áratugum hjá karlmönnum, fóru heldur ekki vel með fæturna. Verst er ástandið hjá þeim sem gengu í svona skóm, háhæluðum eða támjóum, dag eftir dag. Ákveðin kynslóð á við vanda að stríða vegna þessa en það er minna um þetta núna."

­ Hvaða tæki notið þið við störfin?

"Við notum hnífa á líkþorn en einnig til að laga niðurgrónar neglur og fjarlægja alla harða húð og dauða húð undan nöglunum. Einnig erum við með stórar klippur og notum fræsara til að þynna neglur sem eru orðnar of þykkar, oft vegna sveppasýkingar. Við notum stóran fræsara til að ná burt siggi undan hælum, á eftir er notaður áburður.

Sumir fá svona meðferð á sex mánaða fresti, aðrir mun sjaldnar. Þetta tekur allt að klukkustund, öll meðferðin. Við gefum líka ráð í sambandi við skófatnað og bendum á ráð við fótsvita, ráðleggjum krem og þess háttar. Reynt er að úða bakteríudrepandi efni í skó til að losna við sveppi og ólykt en slíkt er mjög lífseigt.

Sýktu neglurnar eru mýktar upp með heitu baði. Þær eru oft orðnar gulleitar og í versta falli þarf læknir að fjarlægja nöglina. Þá er komin slæm sýking sem erfitt getur verið að ráða við. Nýja nöglin verður oft jafnslæm en lyfin eru nú að batna. Til að forðast sveppasýkingu þarf fólk fyrst og fremst að skipta oft um sokka, þvo sér reglulega og þurrka sér vel á milli tánna."

INGIBJÖRG Reynisdóttir er 26 ára gömul og fótaaðgerðafræðingur að mennt. Hún lauk bóklegu námi hér heima í fjölbrautaskólanum við Ármúla og löggildingarprófi eftir námskeið í atvinnugreininni sem Félag fótaaðgerðafræðinga skipulagði í samstarfi við stjórnvöld. Jafnframt vann hún á stofu. Meðal námsgreina voru líffærafræði og námskeið voru um innlegg og fleira tengt fótameinum.

Ingibjörg fluttist síðan til Danmerkur fyrir rúmum tveim árum til að reyna eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn. Miklar kröfur eru gerðar til fólks í starfsstéttinni þarlendis en Ingibjörg fékk prófið frá Íslandi viðurkennt sem ekki mun hafa átt sér stað áður.

Ingibjörg Reynisdóttir

til baka í greinar

© eyglo.is - 2008 - netfang 1 - netfang 2
hönnun og umsjón:ingvi rafn

eXTReMe Tracker