Grein í Fréttablaðinu 29 apríl 2005
Endurgreiðslur
Tryggingastofnunar
Hvaða þjónusta á rétt á að fá endurgreiðslu frá Tryggingjastofnun?
Eiga gigtar-, lömunar og hreyfihamlaðir sjúklingar rétt á að fá stuðning frá Tryggingastofnun fyrir fótaaðgerð?
Hér á landi sem og víða annars staðar flokkast fótaaðgerð undir heilbrigðisþjónustu.
Vil ég leggja fyrirspurn til félagasamtaka þessara hópa og annarra hópa sem eru í svipaðri aðstöðu.
Hvernig stendur á því að þessi þjónusta er ekki niðurgreidd líkt og sjúkraþjálfun að undangenginni skoðun og eftir mati lækna? Hafa þessi félagasamtök ekki reynt að leita eftir því? Hefur þeim verið hafnað af Tryggingastofnun? Margir einstaklingar sem eru fatlaðir og þjást af gigtarsjúkdómum, sykursýki, psoriasis o.fl. þurfa nauðsynlega á þessari þjónustu að halda og geta ekki án hennar verið. Vekur það undrun mína að stuðningur gegnum Tryggingastofnun sé ekki fyrir löngu komin á eins og gerist í nágrannalöndum okkar samkvæmt mati læknis hverju sinni. Ýmsir húðsjúkdómar mynda ákveðin húðútbrot á fótum þar sem fótaaðgerð er besti kosturinn, ásamt hjálp með sýrukremi sem er ávísað á fólk.
Liðagigtasjúkdómar þar sem álagssvæði fótsins fer úr skorðum leiða oft til sársaukafullrar myndunar á siggi sem þarf að fjarlægja reglulega.
Stuðningsmeðferðir með sílikoni á tær fyrir fólk sem m.a. lamast af ýmsum orsökum. Það er meðferð sem mikilvægt er að framkvæma strax þegar varanleg lömun hefur átt sér stað, áður en sinarnar byrja að styttast og tærnar byrja að kreppast.
Aðgerðir sem hafa verið gerðar á tábeinum mistakast því miður mjög oft og fólk verður að leita til okkar eftir þær aðgerðir þar sem líkþornamyndun m.a. hefur aukist og þörf er fyrir stuðning með sílikoni. Margir sjúkraþjálfarar eru meðvitaðir um hvað sílikon getur hjálpað og senda fólk til okkar í meðferð. Niðurgrónar neglur eru mikið vandamál sem hægt er að laga með spangarmeðferð, samanber réttingu á tönnum, og óþarft að gera dýrar aðgerðir framkvæmdar af læknum í mörgum tilvikum. Sú þjónusta sem hér býðst sjúklingum getur aukið vellíðan þeirra sem og sparað almannafé í formi vinnutaps og kostnaðar á vegum sjúkrastofnanna