Hvers virði eru fæturnir okkur?
Frá Eygló Þorgeirsdóttur:
FÓLK úr öllum greinum þjóðfélagsins þjáist af ýmsum fótameinum svo sem líkþornum, niðurgrónum nöglum, óeðlilegri siggmyndun, sprungnum hælum o.s.frv. og þarf á hjálp að halda, bæði tímabundið eða með reglubundinni meðferð til að halda fótunum í góðu ástandi. Eldra fólk, hreyfihamlað, sjóndapurt, andlega vanheilt, sykursjúkir og gigtveikir þurfa meira á okkar hjálp að halda með spangar- og hlífðarmeðferð ásamt reglubundinni fyrirbyggjandi meðferð.

Þykir mér með ólíkindum hvað þessir hópar hafa lítið beitt sér til að fá þessa þjónustu endurgreidda að hluta eða öllu leyti úr sjúkra- eða tryggingarsjóðum eins og tíðkast í mörgum greinum innan heilbrigðiskerfisins, m.a. sjúkraþjálfun.
Silikonhlífðarefni fyrir krepptar tær
Hve margt eldra fólk og hreyfihamlað þekkir ekki þá tilfinningu að tærnar kreppast og verða hver undir annarri? Þessi einkenni eru fátíðari hjá körlum vegna betri skófatnaðar en tíðkast hefur hjá konum í gegnum árin. Silikon er frábært efni til að laga og koma í veg fyrir líkþorn sem myndast framan á tánum, milli þeirra og ofan á þeim. 15 ára reynsla mín af þessum efnum er að slík líkþorn minnka eða hverfa og öll óþægindi eru úr sögunni. Þessi silikonefni þarf fólk venjulega að nota alltaf, því þau breyta álagi fótarins meðan þau eru notuð. Ef fólk með skekktar tær og ranga álagsfleti hættir að nota silikonið koma einkennin fljótlega í ljós aftur. Þessi efni eru mjúk, sveigjanleg en sterk og geta enst í áraraðir. Hin síðari ár hafa fleiri og fleiri fótaaðgerðafræðingar tileinkað sér þessa meðferð.
Hversu virt eru störf fótaaðgerðafræðinga og hvernig er reglum heilbrigðiseftirlits framfylgt á sjúkrastofnunum?
Samkvæmt nýjum reglum heilbrigðiseftirlits um starfsemi á fótaaðgerðastofum er farið fram á ákveðna þætti sem fótaaðgerðafræðingar í einkageiranum reyna að framfylgja eftir bestu getu. Annað blasir við í opinbera geiranum, á sjúkrahúsum og flestum dvalarheimilum fyrir aldraða, vangefna og sjúka. Þetta á sér stað þrátt fyrir að víða sé verið að byggja eða breyta, þá er sjaldnast gert ráð fyrir þessari starfsemi eða hún látin mæta afgangi. Vil ég þar nefna Landakot, þar er engin eða léleg aðstaða fyrir fótaaðgerðafræðinga. Sama máli gegnir um Landspítalann, Grensásdeild, Reykjalund, Kleppspítalann, Arnarholt, Sólheima í Grímsnesi, Heilsuhælið í Hveragerði og fl. Á Borgarspítalanum hefur starfsemin verið lögð niður nema þá í rúmunum sem er ólöglegt. Álít ég að engum þyki fýsilegt að leggjast í rúm þar sem þykkar sveppaneglur hafa verið þynntar á sjúklingi þrátt fyrir að fyllstu varúðarráðstafanir hafi verið gerðar.
Þessi þjónusta þykir sjálfsögð á þessum stöðum en okkur er jafnan troðið inn í hin ótrúlegustu skot með þjónustu okkar svo sem skol, böð, fatahengi, gluggalausar skonsur og á staði þar sem einhver önnur starfsemi á sér stað, sem er óheimilt samkvæmt reglugerðum. Þarna er opinberi geirinn fyrstur til að brjóta sín eign lög. Væri ekki úr vegi að heilbrigðiseftirlitið kannaði þau mál og innheimti greiðslur frá þessum stofnunum líkt og þeir krefjast frá einkageiranum.
Sólheimar í Grímsnesi og aðrar hliðstæðar stofnanir
Heimili þessi gera ekkert frekar ráðstafanir fyrir þjónustu fótaaðgerðafræðinga. Tala ég þar af reynslu því Sólheimum þjónaði ég í nær tvo áratugi eða fram til ársloka 1997. En eftir áramótin virðist hafa orðið uppstokkun og breyting á starfsháttum þar og mín ekki verið þörf þar síðan. Þeir fótaaðgerðafræðingar sem þjóna einstaklingum sem eiga við heilabilun að stríða þurfa að hafa miklu meira til að bera en að vinna verkið og mikilvægt er að fullt traust og virðing skapist milli fagfólks og þessara einstaklinga. Mikilvægi þess vill því miður oft gleymast og er þá kannski léttvægt þótt tannlækninum, fótaaðgerðafræðingnum, nuddaranum og rakaranum sé öllum troðið í sama herbergið sinn daginn hverjum, en er engu að síður ólöglegt.
Þjónustuíbúðir innan Félagsmálastofnunar
Nú leigir Félagsmálastofnun fótaaðgerðafræðingum stofur sínar, eftir að kærð var að ég hygg til Samkeppnisráðs starfsemi sem stofnunin rak til fjölda ára með fótaaðgerðafræðinga sem verktaka. Var þá verktökunum boðið að kaupa áhöld og tæki stofunnar og leigja aðstöðuna. Þetta þýddi að loka varð þessum rýmum til að aðskilja starfsemina frá annarri starfsemi. Kom þá í ljós að minnka varð aðstöðuna og uppfyllir hún víða ekki kröfur heilbrigðiseftirlits. Mun ég ræða þessi og önnur mál síðar.
EYGLÓ ÞORGEIRSDÓTTIR,
stofnandi Félags íslenskra fótaaðgerðafræðinga og fyrsti formaður félagsins.